Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands 2016

Skýrsla stjórnar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til aðalfundar HAUST bs.  2. nóvember 2016 
flutt af Jóni Birni Hákonarsyni, formanni heilbrigðisnefndar

Heilbrigðisnefndin

Núverandi formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands, sem hér stendur, tók til starfa á síðasta aðalfundi og hefur því gengt formennsku í rétt ár.  Starfið í nefndinni hefur gengið vel og samstarf nefndarmanna með miklum ágætum.  Í starfinu er mikil áhersla lögð á að nefndarmenn séu fulltrúar alls svæðisins, þótt staðþekking sé vissulega notuð auk sérþekkingar sem býr með nefndarmönnum. 

Frá aðalfundi 2015 hafa verið haldnir sex fundir í heilbrigðisnefndinni. Af þessum fundum hafa fjórir verið símleiðis, einn fundur var haldinn í Breiðdal og annar á Fáskrúðsfirði. 

Starfsmannamál

Júlía Siglaugsdóttir sagði upp starfi sínu hjá HAUST síðsumars og í hennar stað var ráðin Lára Guðmundsdóttir, BSc í auðlindafræði.  Lára sótti réttindanám fyrir heilbrigðisfulltrúa í október og í heilbrigðisnefnd hefur verið samþykkt að ráða hana í vinnu árið 2016, enda fer Leifur Þorkelsson í barneignaleyfi og þar sem verkefnum embættisins fjölgar sífellt er ekki vanþörf á að bæta við vinnukrafti.

 

Verklag og verkaskipting

Á árinu féll úrskurður í kærumáli sem Heilbrigðisnefnd Vesturlands var aðili að. Í málinu var úrskurðað gegn heilbrigðiseftirliti, á þeirri forsendu að framkvæmdastjóri hafði unnið að máli og undirritað gögn, þar sem segir í lögum að heilbrigðisnefnd skuli gera það.  Hingað til hefur það verið viðtekið sjónarmið að starfsmenn séu ráðnir af heilbrigðisnefndinni og vinni verk í hennar umboði og með hennar trausti.  Ef nefndin sjálf þyrfti að taka formlega ákvörðun um allar umsagnir, útgáfu starfsleyfa o.þ.h. væri um að ræða mikla breytingu á umhverfi nefndanna og engan vegin nóg að þær fundi 8-12 sinnum árlega. Á fundi heilbrigðisnefndar Austurlands var ákveðið að færa formlega til bókar umboð til starfsmanna til að vinna ákveðin verk í umboði nefndarinnar, en vonir eru bundnar við að unnin verði breyting á hollustuháttalögum til að skýra línur í þessu máli og gefa starfseminni fast land undir fætur.

Efst á baugi

Þau mál sem hafa tekinn mestan tíma í starfi nefndarinnar eru málefni olíufélaganna.  Þau eru flest stór fyrirtæki og þrátt fyrir yfirlýstar umhverfisstefnur virðist erfitt að ná fram úrbótum á umbúnaði og frágangi bensínstöðva.  Heilbrigðisnefnd hefur þá stefnu að vinna með fyrirtækjum eins lengi og hægt er, þannig að þegar fyrirtæki leggja fram tímasettar úrbótaáætlanir eða óska eftir tilteknum frestum til að ljúka framkvæmdum, þá er reynt að verða við því svo framarlega sem umhverfi eða lýðheilsu er ekki ógnað.  Það kemur þó ekki í veg fyrir að nefndin noti þau tæki sem henni eru fengin skv. hollustuháttalögum til að knýja á um úrbætur.  Þannig endaði mál Olís vegna ósamþykkts tanks í Hestgerði með beitingu dagsekta - sem varð að fjölmiðlamáli fyrir rúmri viku eins og eflaust einhverjir hafa heyrt. Beiting þvingunarúrræða er þó þunglamalegt ferli og okkur skylt að beita því í miklu hófi.  Oftast er búið að gera aths. eða ábendingar í eftirlitsskýrslum, en ef ekki er brugðist við þarf að fara í formlegar bréfaskriftir með kynningu á áformum um beitingu þvingana, fyrirtækinu veittur frestur til andmæla og til að koma sínum skoðunum á framfæri, heilbrigðisnefnd tekur síðan ákvörðun um hvort þvingunarúrræðum er beitt á grunni þeirra gagna sem starfsmenn og fyrirtækið leggja fram.  Fyrirtækinu er tilkynnt um þvingunarúrræðin og bent á kærurétt ef þau eru ósátt við ákvörðun nefndarinnar.

Vart þarf að fjölyrða um vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi og því mikla álagi sem aukning í ferðaþjónustu hefur á starf heilbrigðisfulltrúa. Lausleg talning í fyrirtækjaskrá sýnir að um 30 ný starfsleyfi voru gefin út vegna sölu á gistingu bara í sveitarfélaginu Hornafirði það sem af er ári 2016.  Aðilar sem hafa verið með sölu á gistingu eru auk þess margir að byggja við og því miður virðist gleymast að huga að fráveitumálum og jafnvel öflun neysluvatns til að sinna gestum. 

Fráveitumálin eru því miður ekki hátt skrifuð, hvorki hjá fyrirtækjum né opinberum aðilum. Að reisa hótel og taka við gestum án þess að hafa lokið framkvæmdum við hreinsun fráveitu er því miður ekki einsdæmi og aðeins tveir þéttbýliskjarnar á starfssvæði HAUST eru með fráveitukerfi skv. kröfum fráveitureglugerðar, þ.e. Borgarfjörður eystri og Nesjahverfið í Hornafriði, þar sem fráveitum var rétt að ljúka. Heilbrigðisnefnd mun á næstunni þurfa að beita sér af festu í málaflokknum og hvetja ekki síst sveitarfélögin á svæðinu til að leggja fram áætlanir um úrbætur í fráveitumálum. Nauðsynlegt er að þau séu í fararbroddi og til fyrirmyndar fyrir fyrirtækin.

Ferðamenn virðast telja að hver volg spræna henti til baða.  Með reglugerð um baðstaði í náttúru Íslands sem gefin var út árið 2015 er heilbrigðisnefndum gert að hafa eftirlit með „náttúrulegum“ baðstöðum þar sem er rekstur. Jafnframt er nefndunum heimilað að vara ferðamenn við ef sýnatökur leiða í ljós mikla gerlamengun í náttúrulaugum þar sem enginn rekstur er.  - Síðan er það svo annað mál að skilgreina hvað er náttúrulaug og menn virðast halda að heitt eða volgt borholuvatn, leitt í e.k. kör sé náttúrulaug.  Það er hins vegar ljóst að það er ekkert náttúrulegt við fiskikar. Íslenskir rekstaraðilar virðast smitast af þessari trú á böð og leiða vatn í kör, skeljar eða heita potta sem hannaðir eru til heimilisnota og selja gestum sem spa eða heilsulindir, án þess að fullnægjandi hreinsun vatns sé til staðar. Menn virðast því miður hafa gleymt af hverju setja þarf klór í baðvatn og af hverju okkur er öllum gert að þvo okkur rækilega í sturtunni áður en við förum út í sundlaugar. Skv. gildandi baðvatnsreglugerð er aðeins heimilt að taka í notkun nýjar laugar (sundlaugar og setlaugar) sem eru með lokuðu hreinsikerfi og skylt er að nota klór til sótthreinsunar. Eina undanþágan frá þessu atriði er ef unnt er að sýna fram á að gegnumstreymi vatns sé það mikið að sífellt berist hreint vatn í laugina og gerlar geti ekki safnast fyrir.  Sýni sem HAUST hefur tekið nýlega af laugum þar sem rekstaraðilar veigra sér við að nota klór hafa verið með miklu magni saurkólígerla.  Í þessum tilfellum verður að gera kröfu um að rekstaraðilar leggi fram úrbótaáætlanir og hrindi þeim í framkvæmd fyrir næsta vor. Spennandi verkefni framundan hjá heilbrigðisnefndinni! 

Lokaorð

Ljóst er að af nógu er að taka í verkefnum hjá HAUST á komandi ári. Engu að síður er það okkur metnaðarmál sem að þessu starfi komum að fjölga verkefnum á okkar borði og höfum hvatt stjórnvöld til að tryggja framsal verkefna til heilbrigðiseftirlitanna frá stofnunum ríkisins. Er það trú okkar að margt eftirlit eigi betur heima í héraði þar sem því er sinnt með staðþekkingu og nálægðinni frekar en í einhverju farandeftirliti með tilheyrandi kostnaði frá stofnunum á suðvesturhorni landsins. Þá er það ljóst að starfsemi eins og heilbrigðiseftirlit og fleiri slík sérfræðistörf eru samfélögunum út á landi nauðsynleg í uppbyggingu vinnumarkaðarins og þarna einföld leið til fjölga slíkum störfum á vegum hins opinbera. Er það því von okkar að beiðnir þessar mæti skilningi stjórnvalda frekar en frekari samþjöppun á sérfræðiþjónustu innan stórra ríkisstofnana á suðvesturhorni landsins.

 2. nóvember 2016

Jón Björn Hákonarson, formaður heilbrigðisnefndar
Helga Hreinsdóttir, frkvstj. HAUST

Heilbrigðiseftirlit Austurlands – haust@haust.is – s. 474 1235

Austurveg 20, 730 Reyðarfjörður - Tjarnarbraut 39b, 700 Egilsstaðir - Ásvegur 31, 760 Breiðdalsvík – Hafnarbraut 27, 780 Höfn

Search