Stofnsamningur - Byggðasamlags um rekstur Heilbrigðiseftirlits Austurlands

Sveitarfélögin sem standa að samningi þessum reka sameiginlega frá 1. ágúst 1998 byggðasamlag um Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST).

Síðast breytt á aðalfundi 3. nóvember 2021


Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Múlaþing, Fjarðabyggð og Sveitarfélagið Hornafjörður gera með sér svohljóðandi stofnsamning um byggðasamlag um HEILBRIGÐISEFTIRLIT Á AUSTURLANDI:

1.Heilbrigðiseftirlit Austurlands bs, skammstafað HAUST er byggðasamlag sveitarfélaga á Austurlandi í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eignarhluti hvers sveitarfélags skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúafjölda og í samræmi við íbúaframlag skv. 7 gr.

2. Starfssvæði HAUST er Austurlandssvæði sbr. 6. tl. 45. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimili HAUST og varnarþing er í Fjarðabyggð.

3. Aðildarsveitarfélögin fela stjórn byggðasamlagsins að taka að sér hlutverk heilbrigðisnefndar fyrir þau í samræmi við lög nr. 7/1998. Orðið "stjórn" í samningi þessum lesist því einnig sem "heilbrigðisnefnd" eftir því sem við á.

Byggðasamlagið skal framfylgja ákvæðum laganna, reglugerðum settum samkvæmt þeim og ákvæðum sérlaga og samþykkta sem við eiga. Nefndin skal vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæðinu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum.


Stjórn byggðasamlagsins ræður framkvæmdastjóra en framkvæmdastjóri sér að öðru leyti um starfsmannamál, þ.m.t. annast ráðningu starfsmanna og veitir þeim lausn frá starfi.


4.Til að vinna að verkefnum þeim sem lög og reglugerðir kveða á um eða aðildarsveitarfélögin kjósa að unnið skuli að á vettvangi HAUST, skulu á fyrsta aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Austurlands bs. eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar, kosnir fimm fulltrúar í stjórn og jafnmargir til vara. Jafnframt skal kosinn einn fulltrúi náttúruverndarnefnda og einn til vara og leitað eftir tilnefningu eins fulltrúa og eins til vara frá samtökum atvinnurekenda á svæðinu. Skal kjöri aðalmannanna fimm háttað í samræmi við eftirfarandi töflu:

 Sveitarfélag  Fulltrúar
 Fjarðabyggð  1
 Múlaþing  2
 Sveitarfélagið Hornafjörður  1
 Vopnafjarðarhreppur/   1
 Fljótsdalshreppur

 

Í samræmi við 48. gr. laga nr. 7/1998 skiptir stjórnin sjálf með sér verkum en samkomulag er um það milli aðildarsveitarfélaganna að formaður og fulltrúi náttúruverndarnefnda komi úr Fjarðabyggð og varamaður hans úr Sveitarfélaginu Hornafirði. Fulltrúi náttúruverndarnefnda hefur málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Ný stjórn, sem jafnframt er Heilbrigðisnefnd Austurlands í samræmi við 1. mgr. 3.gr. taki til starfa á aðalfundi byggðasamlagsins, eftir að fyrri stjórn hefur skilað skýrslu, ársreikningum og fjárhagsáætlun.


5. Ef aðalmaður í stjórn kýs að hætta störfum eða flytur burt af svæði því, sem honum er ætlað að vera fulltrúi fyrir, ber honum að hlutast til um að varamaður taki sæti hans og að sveitarstjórnir á viðkomandi svæði skipi annan varamann í hans stað. Hið sama gildir í þeim tilfellum að varamaður lætur af störfum af sambærilegum ástæðum.


6.Aðalfund HAUST skal halda eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. Skal miða við það að dreifa staðsetningu aðalfunda um starfssvæðið. Til aðalfundar boðar stjórn eigi síðar en þremur vikum fyrir fundardag. Eigi síðar en 1. nóvember og a.m.k. einni viku fyrir aðalfund skal öllum aðildarsveitarfélögunum hafa verið send dagskrá hans, ársreikningar fyrir næstliðið starfsár og fjárhagsáætlun þar sem fram kemur áætlað framlag hvers og eins aðildarsveitarfélags og áætlaðar breytingar milli ára. Með samþykkt fjárhagsáætlunar er jafnframt ákveðið heildarframlag aðildarsveitarfélaganna fyrir viðkomandi starfsár.
Form ársreikninga og fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við reikningsskilareglur sveitarfélaga.
Á aðalfundi skal stjórn leggja fram skýrslu um starfsemi frá seinasta aðalfundi og gera grein fyrir áformum um helstu viðfangsefni komandi starfsárs í samræmi við fram lagða fjárhagsáætlun. Á aðalfundi skulu og eftirtalin mál afgreidd:
a) Reikningar næstliðins starfsárs

b) Fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár í samræmi við ákvæði 46. gr. laga nr. 7/1998

c) Gjaldskrárbreytingar

d) Önnur mál s.s. breytingar á stofnsamningi eftir því sem þörf er á og dagskrá fundarins segir til um.

Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Einfalt meirihlutasamþykki með hliðsjón af mætingu á fundinn nægir við afgreiðslu mála. Aðrir fulltrúafundir en aðalfundur skulu haldnir eftir því sem þurfa þykir og nægir að boða til þeirra skriflega með viku fyrirvara. Einn fjórði hluti aðildarsveitarfélaganna eða a.m.k. þrír stjórnarmanna geta farið fram á fulltrúafundi, enda sé fundarefni tilgreint. Skulu slíkir fundir haldnir eigi síðar en þremur vikum eftir að lögleg ósk kemur fram um að svo skuli gert.

7. Heildarframlög sveitarfélaganna til HAUST eru tvenns konar: Annars vegar áætlaðar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi í hverju sveitarfélagi og hins vegar íbúaframlag, bein gjöld sveitarfélaga skv. íbúafjölda næstliðins árs. Sveitarfélög greiða framlög til HAUST með mánaðarlegum greiðslum og annast innheimtu eftirlitsgjalda. Gjalddagar eru 12 á ári, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Heimilt er að reikna dráttarvexti á framlög sveitarfélaganna skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, berist þau ekki í síðasta lagi 10. dag hvers mánaðar.

8. Sérhver sveitarstjórn á starfssvæði HAUST kýs árlega a.m.k. einn fulltrúa og annan til vara á aðalfund og aðra fulltrúafundi. Séu fulltrúar fleiri en einn skal getið um skiptingu atkvæða milli þeirra á kjörbréfi. Hvert sveitarfélag greiðir ferða- og uppihaldskostnað fulltrúa síns eða sinna, nema um annað sé samið
Regla um vægi atkvæða á fulltrúafundum er svohljóðandi:

Fjöldi íbúa: Fj. fulltr a.m.k.: Viðbót: Vægi atkv.:
     0 -  200 1   1
 201 -  550 1 +1 2
 551 -  900 1 +2 3
 901 - 1250 1 +3 4
1251 - 1600 1 +4 5
1601 - 1950 1 +5 6
1951 - 2300 1 +6 7
2301 - 2650 1 +7 8
2651 - 3000 1 +8 9
3001 - 3350 1 +9 10
3351-3700 1 +10 11
3701-4050 1 +11 12
4051-4400 1 +12 13
4401-4750 1 +13 14
4751-5100 1 +14 15 o.s.frv.


9.  Stjórn byggðasamlagsins ræður framkvæmdastjóra en framkvæmdastjóri sér að öðru leyti um starfsmannamál. Um kröfur til hæfni starfsmanna og faglegar skyldur fer skv. lögum þeim, er starfsemin byggir á.

10. Úr sjóðum HAUST skal greiða laun starfsmanna, sem ráðnir eru skv. 10. gr., kostnað við stjórn heilbrigðiseftirlitsins, fundahöld, ferðalög og uppihald starfsmanna, kostnað skv. 12. gr. svo og allan annan tilfallandi kostnað, enda sé ráð fyrir honum gert í fjárhagsáætlun viðkomandi árs.

11. Fundi í stjórn byggðasamlagsins sem jafnframt er Heilbrigðisnefnd Austurlands, skal halda svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en sex sinnum á ári. Boða skal til fundar með dagskrá að lágmarki þremur dögum fyrir fund. Fundur er ályktunarhæfur ef löglega er til hans boðað og meirihluti atkvæðisbærra stjórnarmanna mæta til fundar. Falli atkvæði jöfn við atkvæðagreiðslu í stjórn hefur atkvæði formanns aukið vægi.
Umboð stjórnar samlagsins til ákvarðanatöku takmarkast aðeins af samningi þessum og þeim lögum sem gilda hverju sinni s.s. sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 og ákvæði þeirra um fjármál sveitarfélaga. Aðeins er þörf á staðfestingu aðildarsveitarfélaga á ákvörðunum stjórnar samlagsins sé um meiriháttar ákvarðanir um að ræða eða breytingar á rekstri þess

12. Framkvæmdastjóri HAUST skal sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en ber þó að víkja af fundi, sé stjórn að fjalla um persónuleg mál hans. Heimilt er að boða aðra starfsmenn á fundi eftir þörfum

13.
Framkvæmdastjóri skal framfylgja ákvörðunum sem teknar eru á fundum stjórnar.
Milli funda er framkvæmdastjóra og öðrum heilbrigðisfulltrúum heimil afgreiðsla mála f.h. Heilbrigðisnefndar Austurlands svo sem útgáfa starfsleyfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli, sem og útgáfa tóbakssöluleyfa samkvæmt lögum 6/2002 um tóbakssvarnir og annarra leyfa þar sem skilyrðum laga og reglna er fullnægt.
Framkvæmdastjóri og aðrir heilbrigðisfulltrúar sjá um að gefa umsagnir um rekstarleyfi fyrir veitinga og gististaði samkvæmt lögum nr. 85/2007 veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
Framkvæmdastjóra er falið að svara erindum og bréfum f.h. nefndarinnar. Framkvæmdastjóri sér jafnframt um að vinna umsagnir um teikningar og skipulagstillögur frá sveitarstjórnum sem og samþykktir sveitarfélaga skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998
Framangreindar afgreiðslur skulu lagðar fram til kynningar á næsta reglulega fundi heilbrigðisnefndar
Formaður stjórnar HAUST, sem jafnframt er formaður heilbrigðisnefndar ásamt varaformanni og framkvæmdastjóra eða hans staðgengli mynda framkvæmdaráð og er þeim heimil vinna að framvindu mála milli stjórnarfunda.
Fullnaðarafgreiðsla mála fer fram á löglega boðuðum fundum heilbrigðisnefndar.
Fundargerðir HAUST skulu sendar nefndarmönnum, aðildarsveitarfélögum og öðrum er nefndin ákveður.

14. Stjórn byggðasamlagsins getur ekki skuldbundið aðildarsveitarfélögin umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun HAUST eða samþykktum þessum. Ákvarðanir um lántökur eða mál sem varða útgjöld umfram fjárhagsáætlun byggðasamlagsins, þarfnast staðfestingar stjórnar og allra aðildarsveitarfélaganna
Stjórn byggðasamlags er heimilt að gera samning við einkaaðila um framkvæmd einstakra þátta þjónustunnar enda samrýmist þeir samningar lögum um þjónustuna, sveitarstjórnarlögum og rúmist innan fjárhagsáætlunar byggðasamlagsins. Sömuleiðis er stjórn heimilt að gera samninga við einstök aðildarsveitarfélög um umsjón afmarkaðra verkefna

15. Um úrsögn og slit byggðasamlagsins og uppgjör eigna og skulda við slit þess fer skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

16. Hægt er að breyta samningi þessum á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga að lágmarki. Skulu tillögur að breytingu á stofnsamningi fylgja aðalfundarboði.

17. Endurskoða skal samningin þennan ef eitthvert aðildarsveitarfélag óskar þess eða ef ástæða þykir, til dæmis ef breytingar verða á lögum eða verkefnum er varða starfsumhverfi HAUST.

18. Að öðru leyti en kveðið er á um í stofnsamningi þessum gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga um samstarf sveitarfélaga í byggðasamlögum.

HAUST

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir
Bakka 1
765 Djúpavogur
Hafnarbraut 27
780 Höfn
haust@haust.is
474 1235

Search